Ungur maður tilkynnti Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um líkamsárás sem hann varð fyrir á ellefta tímanum í gærkvöldi. Maðurinn var ítrekað sleginn í andlitið auk þess sem gerendur brutu rúðu á bifreið hans. Árásarþoli þekkti gerendur.
Þetta kom fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem átti í nógu að snúast í nótt en verkefnin einkenndust helst af því að stöðva ökumenn sem grunaðir eru um ölvun við akstur.
Laust eftir klukkan níu í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað á veitingahúsi í miðbænum en gestur veitingahússins sagði að erlendur ferðamaður hefði stolið jakkanum sínum ásamt öllu því sem hann geymdi í vasanum.
Það var síðan klukkan tæplega hálf tvö í nótt sem starfsfólk veitingastaðarins tilkynnti lögreglu að meintur þjófur væri mættur aftur á veitingahúsið og var hann handtekinn skömmu síðar.
Maðurinn reyndist vera með umræddan jakka í fórum sínum en munir voru aftur á móti horfnir úr jakkanum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu.
Líkamsárás í Hafnarfirði
Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
