Fótbolti

Infantino lækkaði refsingar PSG og City fyrir fjármálabrot

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. Vísir/Getty
Gianni Infantino á að hafa komið í veg fyrir refsingar Manchester City og PSG vegna brota á fjármálareglum samkvæmt gögnum þýska blaðsins Der Spiegel.

Í gögnum Der Spiegel kemur fram að forseti FIFA, Gianni Infantino, hafi hjálpað Manchester City og Paris Saint-German að komast hjá refsingum vegna brots á reglum um sanngjarna fjármálahegðun.

Talsmaður Manchester City vildi ekki tjá sig um „gögn tekin úr samhengi sem voru fengin með ólögmætum hætti,“ samkvæmt frétt BBC.

Þjóðverjarnir vísa þeim ásökunum á bug og segja heimildir sínar mjög traustar.

Samkvæmt frétt Der Spiegel sögðu félögin að styrktarsamningar þeirra væru meira virði en þeir í raun eru til þess að mæta reglunum. Þegar það komst upp og félögin áttu von á refsingum árið 2014 tók Infantino í taumana og sá til þess að refsingarnar yrðu mildar.

Á þeim tíma var Infantino framkvæmdarstjóri UEFA. Bæði lið fengu sekt upp á 49 milljónir punda en 32 milljónir af þeirri upphæð voru skilorðsbundnar og þurftu félögin því bara að greiða 17 milljónir.

PSG sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að „síðan fjármálareglurnar voru settar á hefur Paris St-Germain verið undir hvað stærstri smásjá og hefur félagið alltaf farið eftir lögum og reglum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×