Fótbolti

Ronaldo hefði getað farið til Milan en fyrrverandi eigendur vildu hann ekki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo er á toppnum með Juventus.
Cristiano Ronaldo er á toppnum með Juventus. vísir/getty
Massimiliano Mirabelli, fyrrverandi yfirmaður knattspyrnumála hjá AC Milan, fullyrðir að Cristiano Ronaldo hefði getað orðið leikmaður liðsins síðasta sumar en þáverandi eigendur Mílanóliðsins vildu ekki fá portúgalska goðið.

Ronaldo vildi ekki vera lengur hjá Real Madrid eftir síðustu leiktíð og gekk í raðir Juventus eftir níu ár og fjöldan allan af titlum hjá spænska risanum. Juventus borgaði 100 milljónir punda fyrir þennan 33 ára gamla ofurspilara.

Mirabelli var á undan Juventus í málin og ræddi við Jorge Mendes, umboðsmann Ronaldo, um möguleg kaup á leikmanninum. Viðræður þeirra gengu vel en þáverandi eigandi AC Milan, Li Yonghong, stöðvaði samningaviðræðurnar.

„Við vorum í viðræðum við Jorge Mendes því við vissum að það væru vandræði á milli Real og ronaldo. Við gerðum allt sem við gátum til að fá Ronaldo en kínversku eigendurnir vildu ekki fá Ronaldo því þeir töldu það ekki ganga upp til lengri tíma. Núverandi eigendur hefðu gengið frá kaupum á honum,“ segir Mirabelli í viðtali við Sportitala.

Ameríski fjárfestingasjóðurinn Elliot Management keypti AC Milan í sumar af Kínverjunum og var Mirabelli rekinn skömmu síðar.

Í viðtalinu við Sportitala greinir Mirabelli einnig frá því að félagið var nálægt því að fá Antonio Conte til starfa í nóvember 2017 eftir að Vincenzo Montella var rekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×