Mullah Abdul Manan Akhund, einn æðsti meðlimur Talibana í Afganistan, var felldur í loftárás Bandaríkjanna í gær. Talibanar segja fall hans vera stóran missi en þeir séu enn staðráðnir í að ná aftur tökum á Afganistan. Auk Abdul Manan féllu 29 aðrir í árásinni.
Abdul Manan var ríkisstjóri í Helmundhéraði, sem er að stórum hluta undir stjórn Talibana og yfirmaður herafla þeirra í suðurhluta Afganistan.
Her Afganistan er nú í sókn gegn Talibönum, með stuðningi Bandaríkjahers, og er markmið þeirrar sóknar samkvæmt Reuters að þvinga Talibana að samningaborðinu. Þeim hefur vaxið ásmegin í Afganistan á undanförnum mánuðum.
Þreifingar hafa átt sér stað á milli sérstaks sendiboða Bandaríkjanna og Afganistan annars vegar og á milli fulltrúa Talibana hins vegar. Þrátt fyrir það hafa átök staðið yfir víðs vegar í landinu þar sem báðar fylkingar hafa reynt að styrkja stöðu sína á mögulegum friðarviðræðum.
Embættismenn í Afganistan segja að dauði Abdul Manan sé mikið högg fyrir Talibana og hann muni auka öryggi í ríkinu.
