Fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður í Wisconsin í Bandaríkjunum hefur stefnt streymisíðunni Netflix vegna ærumeiðinga sem hann telur sig hafa orðið fyrir í heimildarmyndaþáttunum „Making a Murderer“. Hann telur að gefið sé í skyn að hann hafi komið fyrir sönnunargögnum til að koma sök á aðalviðfangsefni þáttanna.
„Making a Murderer“ fjallar um dularfullt morðmál í Manitowoc-sýslu í Wisconsin. Steven Avery var þá dæmdur fyrir morð á Teresu Halbach, ungum ljósmyndara, árið 2007. Hann hafði áður setið saklaus í átján ár í fangelsi vegna tilraunar til nauðgunar sem annar maður framdi. Í Netflix-þáttaröðinni er vinnubrögðum lögreglu og saksóknara í morðmálinu lýst ítarlega og ýjað að því að lögreglan gæti hafa komið sök á Avery. Þegar morðmálið kom upp hafði Avery stefnt sýslunni vegna fangelsisvistarinnar.
Einn lögreglumannanna sem koma einna mest við sögu er Andrew Colborn, rannsóknarlögreglumaður í Manitowoc-sýslu. Hann hefur nú stefnt Netflix vegna ærumeiðinga. Lögmaður hans segir að Colborn hafi mátt þola „háð, fyrirlitningu og andúð“ á heimsvísu eftir að þættirnir birtust fyrir árið 2015.
Sakar hann aðstandendur þáttanna um að greina ekki frá lykilstaðreyndum og að brengla atburði til að láta það virðast sem Colborn og fleiri lögreglumenn hafi komið sök á Avery. Þannig hafi þeir leitt áhorfendur að röngum ályktunum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Önnur þáttaröð „Making a Murderer“ kom út á þessu ári. Fjallar hún um tilraunir lögmanna Avery og frænda hans Brendans Dassey til að snúa við sakfellingum þeirra fyrir áfrýjunardómstólum. Dassey var dæmdur fyrir hlutdeild í morðinu á Halbach og kynferðisbrotum gegn henni. Sakfellingin byggðist aðeins á játningu hans sem lögmenn hans fullyrða að hafi verið fengið fram með þvingunum.
Erlent
Rannsóknarlögreglumaður stefnir Netflix vegna „Making a Murderer“
Tengdar fréttir
Hæstiréttur neitar að endurskoða mál Brendan Dassey
Hæstiréttur Bandaríkjanna neitaði í dag að endurskoða mál Brendan Dassey, sem var fjallað um í Netflix þáttunum Making A Murderer