Bilun í mælispenni Írafossvirkjunar í nótt er talin hafa valdið sprengingu í spenninum sem varð til þess að eldur kom upp í honum.
Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar út á fjórða tímanum og var talin hætta á ferðum vegna olíu í spenninnum. Greiðlega gekk að slökkva eldinn eftir að búið var að jarðtengja spenninn.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir enga truflun hafa orðið á raforkuframleiðslu vegna óhappsins.
Þrátt fyrir að skemmdir virðist ekki vera miklar er Ljósafosslína 1 enn óvirk og er rafmagn á Suðurlandi flutt eftir varaleið um Selfosslínu 2.
Innlent