Lýðheilsustofnun Englands varar við því að ný kynslóð svonefndra LED-ljósa sem verið er að taka í notkun í ljósastaurum geti raskað svefnfriði fólks og jafnvel skaðað sjón þess. Eins geti ljósin reynst eldri ökumönnum skeinuhætt.
Fjöldi sveitarfélaga á Englandi hefur skipt út eldri ljósaperum fyrir LED-ljós undanfarin ár þar sem þau síðarnefndu eru mun ódýrari í rekstri og nota mun minni orku.
Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að ljósið frá LED-perunum er bláleitara en frá eldri tegundum pera. Lýðheilsustofnunin segir að það kunni að vera gott til að halda ökumönnum árvökum. Mörgum gæti hins vegar þótt ljósið óþægilegt. Þá sé þekkt að mikill styrkur blás ljós geti valdið skaða á sjónhimnu augna, að því er segir í frétt The Telegraph.
Séu ljósin ekki deyfð á kvöldin geti þau truflað fólk, ekki síst ung börn og eldra fólk sem sé sérstaklega viðkvæmt fyrir slíku ljósi. LED-ljós í nýrri gerðum bíla geti þannig verið eldri ökumönnum erfiður ljár í þúfu þegar þeir mæta þeim í myrkri.
Læknasamband Bandaríkjanna hefur einnig varað við bláleitu ljósi LED-pera og að það geti haft áhrif á svefn fólks. Það hefur mælt með því að aðeins daufustu tegundir LED-pera séu notaðar og að þeim sé betur stýrt til þess að forðast glampa af þeim.
Talsmaður Sambands enskra sveitarfélaga segir að LED-ljósin hafi verið sett upp þannig að þau lýsi aðeins upp þau svæði sem þess þarfnast. Ljósi geti verið skaðlegt augum fólks hvort sem það er náttúrulegt eða ekki.
Keflavík
Grindavík