Ákveðið hefur verið að óháðir aðilar í innri endurskoðun Reykjavíkurborgar geri úttekt á vinnustaðamenningu og tilteknum starfsmannamálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur telur að slík úttekt eigi að fara fram hjá fleiri fyrirtækjum í eigu borgarinnar. Reykjavíkurborg á alls sjö fyrirtæki en meðal þeirra eru Strætó, Faxaflóahafnir og Sorpa. Þá rekur borgin alls ellefu stofnanir.
Hafa fengið ábendingar um fleiri fyrirtæki
„Sum okkar hafa fengið ábendingar um önnur fyrirtæki og við höfum lagt til að við fengjum upplýsingar um hvernig starfsfólkinu líði. Að fá þessar kannanir, þær hafa ekki fengist hérna inni í borgarráð. Ég tel að borgarráð beri skylda til að vita hvernig starfsfólkinu líður í dótturfyrirtækjum borgarinnar. Við erum framkvæmdarstjórnin, borgarráð, og ég tel að þetta sem hefur komið núna upp í Orkuveitunni verði til þess að menn hljóti að skoða öll félögin í eigu borgarinnar,“ segir Eyþór.
Vill úttekt á vinnustaðamenningu í borginni
Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi í Flokks fólksins er á sama máli.„Það er svona vísbending um eineltismenningu, bæði í ráðhúsinu og víðar, þannig að þetta er einhvern veginn allt að springa út núna, sem er mjög áhugavert. Það þarf tiltekt, það þarf að skoða þetta og taka til og koma síðan á laggirnar almennilegum ferlum. Vonandi verður þetta til þess að einhver nýr tími hefjist í þessum málum og að þetta verði allt betra.“
Kolbrún telur mikilvægt að ráðast í úttekt á vinnustaðarmenningu í borginni.
„Þetta þarf að laga mikið mikið víðar og kannski er þetta bara byrjunin á einhverju ennþá meira sem á eftir að koma í ljós.“