Innlent

Sólin talin valdur að veltunni við Gróttu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Betur fór en á horfðist í fyrstu að sögn varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
Betur fór en á horfðist í fyrstu að sögn varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Pjetur
Tilkynnt var um umferðaróhapp á Seltjarnarnesi á tíunda tímanum í morgun. Um var að ræða bílveltu við bílastæðið úti í Gróttu en að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu fór betur en á horfðist í fyrstu. Mikill viðbúnaður slökkviliðs og lögreglu var á vettvangi.

Aðeins átti ein bifreið hlut að máli og var ökumaðurinn, eldri kona, einn í bílnum. Konan var flutt á slysadeild til öryggis, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu sem fór á slysstað, en varð ekki meint af veltunni.

Bifreiðin valt við Gróttuvita og sagði varðstjóri í samtali við Vísi að sterkar vísbendingar væru um að sólin, sem nú skín lágt á lofti, hafi blindað ökumann, hann keyrt upp á kant og velt bílnum.

Tveir sjúkrabílar og dælubíll voru sendir á vettvang, auk lögreglubíla, þegar tilkynning barst um slysið.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×