Viðskipti innlent

Starfsmenn Domino's tröðkuðu á pítsudeigi: „Þetta er náttúrlega ekki í lagi“

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Staðurinn tengist fréttinni ekki beint.
Staðurinn tengist fréttinni ekki beint. vísir/eyþór
Birgir Örn Birgisson, upplýsingafulltrúi Domino‘s á Íslandi, segir athæfi starfsmanna fyrirtækisins þar sem traðkað var á pítsudeigi á gólfinu, það notað sem „flík“ og potað var í fullbakaða pítsu ekki í lagi. DV greindi frá málinu fyrr í dag og birti myndband sem upprunalega birtist á Snapchat-reikningi eins starfsmannsins.

„Þetta er skýrt gegn okkar vinnureglum og kröfum sem við gerum til okkar sjálfra, félagsins og starfsmanna,“ segir Birgir í samtali við Vísi.



Þá tröðkuðu starfsmennirnir sem um ræðir á deiginu, notuðu það sem flík en einnig var potað í bakaða pítsu. Birgir segir deigið þó hafa verið útrunnið og engin hætta á að það hefði farið í dreifingu til viðskiptavina.



„Þetta var deig sem var útrunnið og fer aldrei út til viðskiptavina. Þeir bregða á leik áður en það fer í ruslið en það er náttúrlega ekki í lagi að þeir séu að haga sér með þessum hætti.“



Hann segir málið vera í ferli og að svona atvik séu tekin föstum tökum af hálfu fyrirtækisins. „Við erum meðvituð um hvaða starfsmenn ræðir. Málið er komið í ferli og við tökum auðvitað á svona málum, hratt og örugglega,“ segir Birgir að lokum.

Hér að neðan má sjá myndbandið sem um ræðir og birt var með frétt DV.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×