Sport

Forréttindi að taka þátt í uppbyggingunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnhildur Yrsa skoraði í fyrsta leik.
Gunnhildur Yrsa skoraði í fyrsta leik. vísir/getty
Það tók Gunnhildi Yrsu Jónsdóttir aðeins tvær mínútur og 13 sekúndur að skrá sig í sögubækur Utah Royals. Liðið er nýtt í bandarísku kvennadeildinni og lék sinn fyrsta leik í henni á laugardaginn þegar það sótti Orlando Pride heim.

Eftir rúmlega tveggja mínútna leik stýrði Gunnhildur Yrsa fyrirgjöf Diönu Matheson í netið og skoraði fyrsta markið í sögu Utah Royals. Þetta sögulega mark íslensku landsliðskonunnar dugði þó ekki til sigurs því hin brasilíska Marta jafnaði metin í 1-1 með marki úr víti á 21. mínútu og þar við sat.

„Þetta var mjög ljúft en ég hefði viljað fara heim með þrjú stig. En fyrsta stigið er komið í hús, og það á erfiðum útivelli,“ segir Gunnhildur Yrsa í samtali við Fréttablaðið.

Stjörnum prýdd framlína

Lið Orlando er gríðarlega vel mannað, sérstaklega í framlínunni, en í leiknum á laugardaginn byrjuðu þær Marta, Alex Morgan og Sidney Leroux saman frammi. Sú fyrstnefnda er oft talinn besti leikmaður allra tíma og þær tvær síðastnefndu eru meðal stærstu stjarna bandaríska landsliðsins.

„Það var ágætt að halda þeim frá markinu. Þær skoruðu úr víti sem var aldrei víti,“ segir Gunnhildur Yrsa sem fékk ágætis færi til að tryggja Utah sigur í uppbótartíma en skot hennar fór yfir mark Orlando.

Gunnhildur Yrsa lætur afar vel af lífinu hjá Utah og segir allar aðstæður hjá félaginu fyrsta flokks.

Allar 100% atvinnumenn

„Ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Þetta er allt annað en ég er vön,“ segir Gunnhildur Yrsa sem hefur leikið í Noregi undanfarin ár. „Fagmennskan hérna er mikil og það er komið fram við mann eins og stjörnu. Það er allt mjög skipulagt. Allir leikmennirnir eru 100% atvinnumenn sem ég hef aldrei kynnst áður. Við búum allar á sama stað og aðstæðurnar eru frábærar. Þjálfarinn [Laura Harvey] er mjög góður.“

Gunnhildur segir fótboltann í bandarísku deildinni mun betri en í Noregi.

„Þetta er allt annað og miklu betra. Þetta er miklu meira krefjandi. Maður fær varla tíma til að pústa. Það er mikið að gera allan leikinn, maður fær minni tíma með boltann og þarf alltaf að vera á tánum,“ segir Gunnhildur.

Fengu leikmenn frá Kansas

Utah Royals var stofnað 1. desember á síðasta ári. Nokkrum dögum áður var Kansas City lagt niður og fóru leikmenn liðsins til Utah. Meðal þeirra var Becky Sauerbrunn, annar af fyrirliðum bandaríska landsliðsins.

„Þetta er bland af Kansas City og nýjum leikmönnum,“ segir Gunnhildur Yrsa. „Hálft byrjunarliðið í gær [fyrradag] lék með Kansas. Við erum með 9-10 landsliðskonur og það er mikil samkeppni í liðinu,“ segir Gunnhildur sem lék um tíma í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og þekkir því ágætlega til vestanhafs.

Utah leikur heimaleiki sína á Rio Tinto vellinum í Sandy, Utah, sem er einnig heimavöllur karlaliðs félagsins, Real Salt Lake sem leikur í MLS-deildinni vestanhafs.

Fyrsti heimaleikur Utah er ekki fyrr en eftir landsleikjahléið, þann 14. apríl þegar liðið tekur á móti Chicago Red Stars. Næstkomandi föstudag á Utah leik gegn Houston Dash í 2. umferð deildarinnar.

Gunnhildur Yrsa segir afar spennandi að taka þátt í því að byggja upp lið frá grunni.

„Þetta eru mikil forréttindi að fá að taka þátt í þessari uppbyggingu. Það er svo mikill metnaður hérna sem gefur manni mikið,“ segir Garðbæingurinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×