Erlent

31 lést í sprengjuárás við kjörstað í Pakistan

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Samtök sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu.
Samtök sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu. Vísir/AP
31 lét lífið í sprengjuárás við kjörstað í Pakistan. Þá eru aðrir 30 særðir, sumir alvarlega, og óttast er að tala látinna muni hækka. Samtök sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Fimm lögregluþjónar og tvö börn eru á meðal hinna látnu.

Sprengjuárásin átti sér stað fyrir utan kjörstað í útjaðri Quetta, höfuðborg Balochistan, fátækasta héraði í Pakistan. Hashim Ghilzai, embættismaður í Quetta, segir í samtali við Sky news, að árásarmaðurinn hafi í fyrstu reynt að komast inn á kjörstað en þegar lögreglan hamlaði för hans hafi hann sprengt sig í loft upp.

Fréttaritari Sky news í Pakistan, Alistair Bunkall, segir að árásin sé tilraun til að trufla þingkosningarnar í landinu sem nú einkennast af hálfgerðu upplausnarástandi.

„Þetta hefur verið blóðug kosningabarátta,“ segir Bunkall. Sprengjuárásin hafi verið í það minnsta sú þriðja í landinu síðan kosningabaráttan hófst. Öryggisgæsla hefur verið hert á kjörstöðum en um hálf milljón lögreglumanna hafa verið ræstir út til að gæta að öryggi kjósenda.

Fyrrverandi Krikketstjarnan og forsætisráðherraefni PTI-réttlætisflokksins, Imram Khan, hefur tjáð sig um árásina.vísir/AP
Það sem hægt er að lesa úr skoðanakönnunum síðastliðinna vikna er að mjótt er á mununum. Tvær fylkingar etja helst kappi, annars vegar PTI- réttlætisflokkurinn með Imran Khan, krikketstjörnu, í broddi fylkingar og hins vegar PML-N flokkurinn sem Shabahz Sharif fer fyrir. Hann er bróðir fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Nawaz Sharif, sem nú situr í fangelsi fyrir spillingu.

Khan hefur brugðist við sprengjuárásinni. Á Twitter sagði hann að hann sé miður sín yfir árásinni og að saklausir borgarar hefðu látið lífið í dag. Óvinir Pakistan séu að reyna að hafa áhrif á hið lýðræðislega ferli. Það sé ekki í boði að gefast upp gegn hryðjuverkamönnum og því hvatti hann borgara til að fylkja liði á kjörstaði.

Kjörstaðir loka klukkan 18.00 í dag að staðartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×