Innlent

Ekkert til sparað við árshátíð Isavia í Hörpu

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Árshátíðin fór fram í Hörpu og var mikið um dýrðir.
Árshátíðin fór fram í Hörpu og var mikið um dýrðir. VÍSIR/VILHELM
Það var mikið um dýrðir og ekkert til sparað þegar árshátíð Isavia fór fram í Hörpu síðastliðinn laugardag. Stjörnulið íslenskra tónlistarmanna kom þar fram undir veislustjórn Jóns Jónssonar og Selmu Björnsdóttur. Heildarkostnaður Isavia vegna árshátíðarinnar nam 31,5 milljónum króna en rúmlega 1.400 manns starfa hjá fyrirtækinu og dótturfyrirtækjum.

„Metnaður hefur verið lagður í að halda góða árshátíð hjá Isavia með fjölbreyttum íslenskum skemmti­atriðum sem hæfa sem flestum, enda fólk á öllum aldri á meðal rúmlega 1.400 starfsmanna fyrirtækisins,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.



Skemmtikraftarnir voru ekki af verra taginu.
Isavia, sem er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins, annast uppbyggingu og rekstur allra flugvalla á landinu og stýrir flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu.

Félagið skilaði 6,9 milljarða króna hagnaði árið 2016 en uppgjör síðasta árs liggur ekki fyrir. Undanfarin ár hafa árshátíðir félagsins þótt veglegar.

Svo veglegar raunar að þær hafa ratað inn í umræður á Alþingi.

Umfjöllun DV um um árshátíðina 2015 varð til þess að Þorsteinn Sæmundsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, vildi láta athuga meðferð fjár hjá opinberum stofnunum og félögum vegna viðburðarins sem þá kostaði 16 milljónir.



Guðjón segir að um standandi borðhald hafi verið að ræða nú og maturinn í boði komið frá veitingaaðila í Hörpu.

Gestir á árshátíðinni, bæði starfsmenn Isavia, dótturfyrirtækja og makar þeirra, greiddu 3.500 krónur í aðgangseyri.

Af lista þeirra skemmtikrafta sem fram komu, og sjá má hér til hliðar, er ljóst að engum starfsmanni þurfti að leiðast.

Guðjón segir að stjórnendur hafi viljað gera vel við sitt fólk.



„Starfsmenn Isavia hafa verið undir miklu álagi á síðastliðnu ári vegna mikillar aukningar í flugumferð bæði til og frá Keflavíkurflugvelli og eins um íslenska flugstjórnarsvæðið. Stjórnendur Isavia vildu því með þessu þakka starfsmönnum fyrir vel unnin störf í þessum mikla vexti sem hefur verið og mun halda áfram á næstu árum gangi spár eftir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×