Erlent

Uppreisnarmenn skutu niður rússneska orrustuþotu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Um var að ræða Sukhoi-25 orrustuþotu.
Um var að ræða Sukhoi-25 orrustuþotu. Vísir/AFP
Uppreisnarmenn í Sýrlandi skutu niður rússneska orrustuþotu í dag og myrtu flugmann vélarinnar. The Guardian greinir frá. 

Varnarmálaráðuneyti Rússlands staðfesti að þota af gerðinni Su-25 hafi verið skotin niður og sögðu að flugmaðurinn hafi fallið í átökum við hryðjuverkamenn.

Heimildarmaður fréttaveitunnar Associated Press segir að flugmaðurinn hafi reynt að skjóta á uppreisnarmennina þegar flugvélin hafði hrapað og að uppreisnarmennirnir hafi reynt að ná honum á lífi.

Uppreisnarsveitir í Sýrlandi hafa í nokkurn tíma skotið niður sýrlenskar orrustuþotur. Í ágúst árið 2016 skutu uppreisnarsveitir í Idlib niður rússneska þyrlu og létust fimm rússneskir hermenn sem voru um borð. Þá voru minnst sjö orrustuþotur Rússa eyðilagðar á Khmeimim flugvellinum í Sýrlandi 31. desember á síðasta ári.

Skömmu eftir að Su-25 vélin var skotin niður í dag svöruðu Rússar með loftárás sem felldi þrjátíu uppreisnarmenn á svæðinu.

Átökin áttu sér stað nálægt Saraqeb sem er í haldi uppreisnarmanna. Breski hópurinn Syrian Observatory for Human Rights sem fylgist með stöðu mála í Sýrlandi tilkynnti í dag að yfir 35 loftárásir hafi verið gerðar á Saraqeb síðan á föstudaginn og bentu jafnframt á það að fjöldi íbúa svæðisins væri nú á flótta.

Rúmlega 11 milljónir hafa þurft að flýja heimili sín eftir að borgarastyrjöld skall á í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×