Innlent

Halda við vitanum í Hrollaugseyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vinnuflokkurinn er með allt sem til þarf til að dytta að vitanum og laga.
Vinnuflokkurinn er með allt sem til þarf til að dytta að vitanum og laga. Landhelgisgæslan
Hópur starfsmanna vitadeildar Vegagerðarinnar vinnur nú að viðhaldi á vitanum á Hrollaugseyjum undan suðausturströnd landsins. Vinnuflokkurinn nýtur aðstoðar áhafnar varðskipsins Þórs og dvelur um borð í skipinu á meðan framkvæmdirnar standa yfir.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að Þór hafi flutt vinnuflokkinn út í eyjuna fyrr í vikunni ásamt verkfærum, málningu og öðrum búnaði. Að auki verður skipt um rafgeyma í vitanum en hann er knúinn sólarorku eins og flestir vitar landsins.

„Mikil vinna er lögð í að koma búnaði til eyjarinnar en engar vélar eða önnur hjálpartæki eru til staðar til að auðvelda verkið. Því er unnið með handaflinu einu saman en áætlað er að vinna við vitann taki um fjóra til fimm daga,“ segir í tilkynningu Gæslunnar.

Hrollaugseyjar eru undan Breiðamerkursandi austanverðum. Vitinn er á austustu eyjunni sem er jafnframt stærst eyjanna þriggja. Hann var byggður árið 1954 samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni Nat.is.

Hrollaugseyjar eru þrjár en vitinn stendur á þeirri stærstu.Landhelgisgæslan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×