Fótbolti

Skrópaði á fyrstu æfingu eftir sumarfrí

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Memphis í leik með Lyon
Memphis í leik með Lyon vísir/getty
Framtíð Memphis Depay hjá franska úrvalsdeildarliðinu Lyon er óljós eftir að kantmaðurinn öflugi lét ekki sjá sig á fyrstu æfingu undirbúningstímabilsins.

Þessi fyrrum leikmaður Manchester United átti að mæta til æfinga á mánudag líkt og aðrir leikmenn félagsins.

„Ég er ánægður að sjá leikmannahópinn aftur. Það vantar einn af 27 leikmönnum; það er Memphis Depay. Það verða dregin af honum laun þegar hann kemur til baka. Hann fékk fimm vikur í frí eins og allir aðrir," sagði Bruno Genesio, stjóri Lyon við fjölmiðla eftir fyrstu æfingu undirbúningstímabilsins.

Depay var einn besti leikmaður Lyon á síðustu leiktíð þar sem hann gerði 19 mörk í 36 deildarleikjum og hjálpaði liðinu að innbyrða þriðja sæti deildarinnar.

Hann hefur verið orðaður við AC Milan að undanförnu en þessi 24 ára gamli kantmaður hefur leikið með Lyon síðan hann kom frá Man Utd í janúarmánuði 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×