Fótbolti

Þrír Frakkar tilnefndir sem leikmenn ársins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Frakkar lyfta bikarnum.
Frakkar lyfta bikarnum. vísir/getty
Þrír leikmenn úr heimsmeistaraliði Frakka eru tilnefndir til verðlaunanna um besta leikmann heims að mati alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. Harry Kane er einnig tilnefndur ásamt Cristiano Ronaldo og Lionel Messi.

FIFA gaf í dag út tíu manna lista yfir tilnefnda leikmenn um titilinn besta leikmann ársins, eða í raun vetursins þar sem tímabilið sem horft er á er frá 3. júlí 2017 til 15. júlí 2018.

Cristiano Ronaldo vann þessi verðlaun á síðasta ári en FIFA stendur fyrir þeim síðan sambandið skildi sig frá valinu á Gullknettinum, Ballon d'Or.

Ronaldo er að sjálfsögðu á listanum eins og síðustu ár sem og hans helsti keppinautur Lionel Messi.

Þar er líka Kevin de Bruyne sem varð Englandsmeistari með Manchester City í vor og vann brons á HM með liði Belga. Landi hans Eden Hazard er einnig á meðal tíu bestu.

Frakkar eiga þrjá fulltrúa á listanum. Antoine Griezmann sem skoraði í úrslitaleik HM og varð næstmarkahæstur á mótinu, Raphael Varane sem vann Meistaradeildina með Real Madrid og ungstirnið Kylian Mbappe sem fór á kostum í Rússlandi.

Englendingurinn Harry Kane, sem vann gullskóinn á HM og var nálægt því að taka gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni, er einnig á lista sem og Luka Modric og Mohamed Salah.

Í kvennaflokki eru sex af tíu á listanum úr liði Lyon sem vann Meistaradeildina í vor. Pernille Harder, liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg, er þar líka ásamt Mörtu sem lengi vel átti titilinn besta knattspyrnukona heims vísann.



 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×