Fótbolti

Pólskan vefst fyrir Böðvari sem berst fyrir mínútum í Bialystok

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Böðvar í búningi Jagiellonia Bialystok.
Böðvar í búningi Jagiellonia Bialystok. vísir/Jagiellonia Bialystok
Böðvar Böðvarsson, leikmaður pólska liðsins Jagiellonia Bialystok, var ekki í leikmannahópnum um helgina þegar að liðið tapaði, 1-0, fyrir Lechia Gdansk í fyrstu umferð pólsku úrvalsdeildarinnar.

Böðvar gekk í raðir Jagiellonia í lok janúar en kom aðeins þrisvar sinnum við sögu á seinni hluta tímabilsins hjá liðinu og spilaði í heildina ekki bema 94 mínútur.

Hafnfirðingurinn berst um mínútur við Brasilíumanninn Guilherme sem fékk rautt um helgina en það verður vonandi vatn á myllu Böðvars í næstu leikjum.

„Ég vissi það, þegar ég fór út, að ég væri ekki að fara labba beint inn í liðið og að þetta gæti orðið erfitt. Ég var ekki búinn að æfa neitt með liðinu og átti því allt eins von á því að ég myndi ekki spila mikið til að byrja með. Að sama skapi þá spilaði ég minna en ég átti sjálfur von á ef ég á að vera hreinskilinn,“ segir Böðvar í viðtali við Morgunblaðið.

Bakvörðurinn öflugi viðurkennir að pólskan vefst fyrir honum. Hann lærir tungumálið á milli æfinga en þarf að gera betur þar, að eigin sögn.

„Ég er búinn að fara í fjóra til fimm pólskutíma og það hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel hjá mér. Við höfum verið að fara nokkrir saman, ég og strákar frá Slóveníu og Slóvakíu,“ segir Böðvar.

„Pólskan fyrir þeim er meira svona eins og danskan er fyrir mér en ég þarf klárlega að fara í fleiri tíma til þess að geta bjargað mér betur,“ segir Böðvar Böðvarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×