„Lengi hefur verið þekkt að öl gerir suma menn mjúka og eftirgefanlega. Eiga þeir þá oft erfitt með að standa í lappirnar í öllum skilningi og gefa loforð út og suður. Því varð fésbókarhvíld mín styttri en ég ætlaði. Ekki er víst að margir fagni því en mér skilst að Ragnari Önundarsyni sé mjög létt.“
Þannig ávarpar Brynjar vini sína á Facebook nú rétt í þessu. Hann er mættur aftur eftir hlé, en Brynjari hefur með skrifum sínum á samfélagsmiðlinum oftar en ekki tekist að koma pólitískum andstæðingum og öðrum úr jafnvægi með umbúðalausum málflutningi og athugasemdum. Brynjar fer yfir skilmála sem hann hefur sett og honum hafa verið settir í tengslum við endurkomuna:
„Heima fyrir voru gefnar nokkrar leiðbeiningar áður en leyfi fékkst fyrir endurkomunni. Ég má ekki halda því fram að þeir sem eru mér ósammála séu ýmist kommúnistar eða fávitar. Gott væri einnig að ég léti Píratana í friði. Vinsamlega, en þó nokkuð ákveðið, var ég beðinn um að halda eiginkonunni fyrir utan skrifin og helst konum almennt. Og alls ekki vera eins og bróðir þinn var sagt í lokin og þá var tónnin ekkert sérstaklega vinsamlegur.“