Fótbolti

Rúmlega 1500 miðar eftir á leikinn gegn Sviss

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Strákarnir vilja sjá fullan völl annað kvöld
Strákarnir vilja sjá fullan völl annað kvöld Vísir/Andri Marinó
Rúmir 1500 miðar eru enn óseldir á landsleik Íslands og Sviss í Þjóðadeild UEFA annað kvöld. Leikurinn er mjög mikilvægur fyrir íslenska liðið.

Ísland er svo gott sem fallið úr A-deild Þjóðadeildarinnar eftir tvö erfið töp í síðasta landsleikjaglugga. Liðið á þó enn möguleika á að halda sér uppi ef það vinnur Sviss á morgun.

Mikilvægi leiksins liggur þó meira í styrkleikaröðun fyrir næstu undankeppni, fyrir EM 2020. Ef Ísland er eitt af 10 bestu liðum A deildarinnar fer Ísland í efsta styrkleikaflokk og getur þar af leiðandi ekki dregist gegn mörgum sterkum þjóðum. Sigur gegn Sviss gæti farið langt með að tryggja það.

Miðasalan á leikinn hefur verið frekar dræm miðað við síðustu leiki á Laugardalsvelli. Þegar rúmur sólarhringur er til leiks hafa rúmlega 8000 miðar verið seldir á leikinn.

Laugardalsvöllur tekur 9800 manns í sæti svo það eru í kringum 1600-1700 miðar eftir á leikinn. 550 miðar hafa verið seldir til svissneskra stuðningsmanna.

Leikurinn hefst klukkan 18:45 annað kvöld.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×