Innlent

Fjórum bjargað þegar bát hvolfdi við Dalvík

Ingvar Þór Björnsson og Þórdís Valsdóttir skrifa
Allir mennirnir eru komnir í aðhlynningu á sjúkrahúsi á Akureyri.
Allir mennirnir eru komnir í aðhlynningu á sjúkrahúsi á Akureyri. Vísir
Björgunarsveitir frá Dalvík og Ólafsfirði voru kallaðar út þegar léttur plastbátur með fjóra menn innanborðs fékk á sig brotsjó og hvolfdi við Hálshöfða rétt sunnan við Dalvík.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að mennirnir hafi komist að sjálfdáðum í fjöruna og björgunarsveitir hafi komið mönnunum þaðan rétt fyrir klukkan þrjú.

Kristján Guðmundsson björgunarsveitarmaður frá Dalvík segir að björgunin hafi gengið vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður. „Þetta er fjara sem þú kemst bara að á bát eða með því að síga niður kletta, mjög stórgrýtt. Þeir voru hífðir upp úr fjörunni því það var engin leið að koma þeim aftur sjóleiðina,“ segir Kristján og bætir við að þetta hafi í raun verið fjallabjörgun.

Þeir eru nú í aðhlynningu á sjúkrahúsi Akureyrar en ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan þeirra að svo stöddu. Segir hann að mennirnir hafi að öllum líkindum verið í skemmtisiglingu.

Björgunarsveitir leituðu að bátnum eftir atvikið og fundu hann stuttu síðar. Nú leita björgunarsveitir að þeim hlutum sem voru innanborðs þegar bátinn hvolfdi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×