Enski boltinn

„Flytjum um leið og hann er tilbúinn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham.
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham. Getty/Robbie Jay Barratt
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, er viss um að nýr leikvangur félagsins muni hjálpa hans liði að afreka meira á næstu árum.

Tottenham er á svaka skriði í ensku úrvalsdeildinni og er komið upp fyrir Manchester City og upp í annað sæti deildarinnar á eftir Liverpool.

Liðið hefur þurft að spila heimaleiki sína á Wembley undanfarið eitt og hálft ár en nú er loksins verið að leggja lokahöndina á nýja leikvang félagsins sem var byggður á sama stað og gamli White Hart Lane.





Nýi leikvangurinn tekur rúmlega 62 þúsund manns í sæti. Hann átti að vera tilbúinn í ágúst en kláraðist ekki í tíma. Nú er stefnan sett á að taka hann í notkun í byrjun ársins 2019.

„Við flytjum um leið og hann er tilbúinn,“ sagði Mauricio Pochettino og hann getur ekki beðið eftir að fá alvöru heimvöll á ný.

„Að fá að spila á þínum eigin leikvangi er það besta sem getur gerst í þínu lífi. Það mun gefa liðinu mikinn aukakraft. Þetta verður staður þar sem stuðningsfólk okkar getur hjálpað liðinu að afreka meira,“ sagði Pochettino.

„Ég er ánægður með Wembley en ef leikvangurinn væri tilbúinn á morgun þá myndum við flytja á morgun,“ sagði Pochettino.

Pochettino talaði líka um Anfield, heimavöll Liverpool, og stemmninguna þar. Hann sér slíkt stuð í hillingum.

„Anfield er stórkostlegur. Þar er partý í hverjum heimaleik Liverpool og það gerir oft útslagið. Maður fann hvað leikvangurinn þráði sigurinn í leiknum við Newcastle,“ sagði Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×