Innlent

Viðræður hafnar um nýtt vatnsból á Suðurnesjum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Ásgeir Margeirsson er forstjóri HS Orku.
Ásgeir Margeirsson er forstjóri HS Orku. vísir/anton brink
HS Orka á í viðræðum við sveitarfélögin á Suðurnesjum um staðsetningu fyrir nýja framtíðarvatnsveitu svæðisins. Ásgeir Margeirsson, forstjóri fyrirtækisins, segir nauðsynlegt að bregðast við í dag þar sem veitan þurfi að vera tilbúin innan tíu til fimmtán ára til að mæta aukinni þörf.

Viðræðurnar eru á byrjunarstigi en að sögn Ásgeirs er nokkuð ljóst að vatnstökusvæði Suðurnesjamanna að Lágum verði ekki vatnsból svæðisins til lengri tíma. Til þess að hægt sé anna vatnsþörf svæðisins í framtíðinni þurfi strax að leita nýrra lausna.

„Það er gríðarlega mikilvægt því það er alltaf númer 1,2, og 3 og jafnvel 4 og 5, að hafa nægt ferskt vatn fyrir byggðina. Það gengur fyrir öllu öðru,“ segir Ásgeir.

Horft er til nokkurra mögulegra staðsetninga.

„Það er ákveðið svæði sem verið er að horfa til og við vinnum það með Grindavík og öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum að undirbúa það mál. Það mun taka einhvern tíma. Það þarf jú rannsóknir og leyfisveitingar og síðan þá boranir eftir vatni og mannvirkjagerð í framhaldi af því.“

Íbúum hefur fjölgað hratt á Suðurnesjum á síðustu árum og segir Ásgeir að vatnsveitan þurfi bæði að í við þessa fjölgun og vaxandi atvinnustarfsemi á svæðinu.

Til þess að ekki komi upp vandamál þurfi HS Orka að vera tilbúin með nýja vatnveitu áður en þörfin verður of brýn. Hversu langur tími sé til stefnu fari eftir byggðaþróun.

„Við höfum nú séð sveiflur í því, stöðnun og enga fjölgun og síðan mikla fjölgun núna á síðustu árum. Það má svona gróft telja að innan svona tíu til fimmtán ára þurfum við að vera tilbúin með aukna framleiðslu fyrir heitt og kalt vatn og það þýðir að það þarf að bregðast við núna og undirbúa til þess að það verði tilbúið þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×