Fótbolti

Sportpakkinn: Albert í sjúkraþjálfun sex tíma á dag og vonast til að verða klár í mars

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Albert slær ekki slöku við í endurhæfingunni.
Albert slær ekki slöku við í endurhæfingunni. mynd/stöð 2
Albert Guðmundsson, leikmaður AZ Alkmaar og íslenska landsliðsins, er staddur hér á landi í endurhæfingu.

Albert fótbrotnaði í leik AZ og Heracles í lok september og þurfti að leggjast undir hnífinn.

Þessa dagana er hann í endurhæfingu hjá Friðriki Ellerti Jónssyni, sjúkraþjálfara íslenska landsliðsins. Albert er sex tíma á dag í sjúkraþjálfun.

„Það er alltaf leiðinlegt að meiðast og sérstaklega þegar maður fær fréttir um að meiðslin séu alvarlegri en maður hélt,“ sagði Albert í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.

„Þetta er svekkjandi því það voru skemmtilegir tímar framundan hjá AZ. En þú þarft að takast á við þetta. Fótboltinn er þannig að þú þarft að takast á við ákveðin verkefni.“

AZ hefur gengið vel á tímabilinu. Það hefur ekki aukið á svekkelsi Alberts.

„Ég pirra mig ekkert yfir því. Ég er bara ánægður fyrir þeirra hönd. Því betur sem gengur hjá þeim núna því skemmtilegra verður þetta þegar ég kem til baka,“ sagði Albert.

En hvenær verður hann klár í slaginn á nýjan leik?

„Ég þori ekki að segja neina dagsetningu en vonandi verð ég með landsliðinu og AZ í mars,“ sagði Albert.

Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan en þar er einnig rætt við Friðrik Ellert.

Klippa: Albert í endurhæfingu á Íslandi
 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×