Íslenski boltinn

Víkingar hafa ekki tapað á teppinu í Traðarlandinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Miðverðir Víkings, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson, fagna eftir sigurinn á Grindavík.
Miðverðir Víkings, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson, fagna eftir sigurinn á Grindavík. vísir/bára
Víkingur R. komst upp í 8. sæti Pepsi Max-deildar karla með 1-0 sigri á Grindavík í Víkinni í gær.

Víkingar hafa ekki tapað leik á heimavelli sínum í sumar. Gervigras var lagt á Víkingsvöll í vetur og framan af tímabili lék Víkingur heimaleiki sína á Eimskipsvelli Þróttar í Laugardalnum.

Víkingar léku loks vígsluleikinn á nýja gervigrasinu í Víkinni föstudaginn 14. júní. Víkingur vann þá HK, 2-1, en þetta var fyrsti sigur liðsins í Pepsi Max-deildinni í sumar. Síðan þá hafa Víkingar leikið sex deildarleiki í Víkinni; unnið þrjá og gert þrjú jafntefli.

Þá vann Víkingur Breiðablik, 3-1, í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á heimavelli. Með sigrinum tryggðu Víkingar sér sæti í bikarúrslitum í fyrsta sinn í 48 ár.

Víkingur hefur alls leikið átta leiki á nýja gervigrasinu í Víkinni; unnið fimm og gert þrjú jafntefli. Markatalan er 15-8. Víkingar hafa hins vegar aðeins unnið einn deildarleik á útivelli í sumar. Það var gegn KA, 3-4, í 10. umferð.

Víkingur á fjóra leiki eftir í Pepsi Max-deildinni á tímabilinu. Aðeins einn þeirra er á heimavelli. Sunnudaginn 22. september taka Víkingar á móti KA-mönnum í 21. umferð.

Þeir rauðsvörtu eru væntanlega staðráðnir í að ljúka tímabilinu taplausir á teppinu í Traðarlandinu þar sem þeim virðist líða svo vel.

Leikir Víkings á gervigrasinu í Víkinni 2019Pepsi Max-deildin:

Víkingur 2-1 HK

Víkingur 0-0 ÍA

Víkingur 1-1 Fylkir

Víkingur 2-2 Valur

Víkingur 3-2 Breiðablik

Víkingur 3-1 ÍBV

Víkingur 1-0 Grindavík

 

Mjólkurbikarinn:

Víkingur 3-1 Breiðablik


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×