Lögreglan á Suðurnesjum fann á sunnudaginn mikið magn landa, stera og kannabisplantna í húsnæði í umdæmi lögreglunnar. Leit var gerð í húsnæðinu að fenginni heimild og fundust þar einnig eimingartæki til áfengisframleiðslu.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að þegar lögregluþjóna hafi borið að garði hafi fáeinar kannabisplöntur í pottum og aðrar sem búið var að vefja inn í handklæði hafi blasið við. Þar að auki hafi kannabisfræ fundist.
Lögregluþjónar fundu einnig tugi ampúla sem talið er að innihaldi stera. Þá var hald lagt á rúmlega tuttugu hálfs lítra flöskur með landa og tvær fötur sem einnig innihéldu landa. Tveir karlmenn voru handteknir og er búið að yfirheyra þá.
Fundu landa, stera og kannabisplöntur
Samúel Karl Ólason skrifar
