Enski boltinn

Segja að Barcelona vilji fá Juan Mata í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Mata.
Juan Mata. Getty/Jose Breton
Spænski landsliðsmaðurinn Juan Mata er væntanlega á förum frá Manchester United í sumar þegar samningurinn hans rennur út. Hann gæti þá valið á milli nokkurra risaklúbba ef marka nýjustu slúðurfréttirnar frá Englandi.

Goal fréttamiðillinn hefur nefnilega heimildir fyrir því að Barcelona hafi mikinn áhuga á að semja við Mata en að það sé líka áhugi hjá honum hjá félögum eins og Juventus á Ítalíu og Paris Saint-Germain í Frakklandi.





Mata lék áður með Chelsea en hann hefur spilað í ensku úrvalsdeildinni frá árinu 2011 þegar hann kom til Chelsea liðsins frá Valencia.

Manchester United og Juan Mata eru enn að ræða nýjan samning en það hafa ekki verið neinar jákvæðar fréttir af þeim þreifingum. United nýtti klausu í samningnum til að framlengja hann til júlí 2019 og félagið vill ekki missa hann.

Áhugi hjá fyrrnefndum félögum gæti vissulega verið einhver tilbúningur frá umboðsmanni Mata og eins og er eru þetta bara sögusagnir í gegnum Goal.

Það er samt eitthvað í gangi því í Guardian og Sky Sports er spænski miðjumaðurinn orðaður við Arsenal.



Mata fær 140 þúsund pund í vikulaun í dag og hann gæti nælt sér í annan góðan samning fái viðkomandi félag hann á frjálsri sölu.

Mata hefur spilað með Manchester United frá árinu 2014 og er með 44 mörk og 35 stoðsendingar í 208 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×