Enski boltinn

Lindelöf verður ánægður ef Solskjær fær starfið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær og Lindelöf eftir kraftaverkið í París.
Solskjær og Lindelöf eftir kraftaverkið í París. vísir/getty
Victor Lindelöf, sænski varnarmaður Manchester United, segist verða ánægður ef Ole Gunnar Solskjær verður ráðinn sem framtíðarstjóri liðsins.

Lindelöf hefur spilað mjög vel eftir að Solskjær tók við liðinu í desember og hefur leikið sextán af nítján leikjum United sem Solskjær hefur stýrt.

Norðmaðurinn hefur einungis tapað einum af sínum þrettán úrvalsdeildarleikjum síðan hann tók við liðinu og þrjú stig eru í þriðja sætið þar sem Tottenham er.

„Ef hann fær starfið verð ég ánægður,“ sagði Lindelöf við Sky Sports um framtíð Solskjær. „Það er ekki mitt að ákveða að endanum en allir eru ánægðir með hvað hann hefur gert síðan hann kom. Ég hef ekkert neikvætt að segja um hann.“

„Hann er goðsögn hjá félaginu svo hann veit allt um það hvernig er að vera leikmaður hérna. Þegar hann talar við þig þá hlustaru. Hann veit hvað hann er að tala um því hann er sjálfur búinn að ganga í gegnum þetta. Það er einnig mjög mikilvægt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×