Leiðtogaráð Evrópusambandsins kom saman til fundar í Brussel í dag til að ræða áherslur og skipan embætta næstu fimm árin. Skipan embætta innan sambandsins kann að reynast flókin þar sem hún byggir á samningaviðræðum á milli ólíkra einstaklinga og stofnana þar sem hliðsjón er tekin af niðurstöðum Evrópuþingskosninga.
Til að mynda tilnefnir leiðtogaráðið forseta framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingið staðfestir tilnefninguna. Til þess þarf meirihluta á þinginu. Viðræður um þessar toppstöður kunna að reynast flóknari en áður þar sem hinar hefðbundnu valdablokkir, mið-hægrimenn og jafnaðarmenn, misstu þingmeirihluta sinn í fyrsta sinn.
Frjálslyndir (ALDE + En Marche) og græningjar (Greens/EFA) bættu hins vegar nokkuð við sig og eru því með pálmann í höndunum og standa vel að vígi fyrir komandi viðræður. Þó að þjóðernissinnum og popúlistum (ENF og EFDD) hafi gengið vel í kosningunum er samstaða hjá öðrum flokkahópum um að starfa ekki með þeim í meirihluta á þinginu. Þeir flokkar munu því koma til með að gæta lítilla áhrifa.

Hverjir koma til greina?
Undanfarin ár hefur evrópski Þjóðarflokkurinn (EPP) verið stærsti flokkahópurinn og stjórnað í slagtogi við flokkahóp jafnaðarmanna (S&D) sem hefur verið næst stærstur. Því hefur Þjóðarflokkurinn gjarnan farið með embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar og jafnaðarmenn fengið á móti bitastætt embætti. Líkt og fram hefur komið er staðan snúnari nú en áður þar sem þessi meirihluti er ekki lengur til staðar. Því horfa sumir til annarra möguleika en að benda einfaldlega á frambjóðanda stærsta flokksins.

Merkel og Macron á öndverðu meiði
Það er ekkert sem neyðir leiðtogaráðið og Evrópuþingið til að virða „spitzenkandidat“ kerfið og skiptar skoðanir eru um það á meðal leiðtoga Evrópu. Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, er sagður afhuga því að Weber taki við sem forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hann vilji leita annarra leiða sem tryggi annaðhvort frjálslyndan fulltrúa í embættið eða Frakka. Macron er sagður koma vel út heimafyrir ef Frakki tekur við toppstarfinu í Brussel. Hann átti hádegisverðarfund með Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, í dag. Það þykir til marks um að hann sé að leita fylgis jafnaðarmanna við hugmyndir sínar.
Angela Merkel, Þýskalandskanslari, hefur hins vegar sagt að ef brugðið verði frá „spitzenkandidat“ kerfinu grafi það undir evrópsku lýðræði. Hún mun styðja við Weber í embættið. Það ætti ekki að reynast henni erfitt enda er hann landi hennar úr sömu flokkafjölskyldu.

Macron er sagður hrifinn af hugmyndinni um Barnier við stjórnvöldin í Berlaymont byggingunni þar sem framkvæmdastjórnin situr. Barnier er frá Frakklandi en Merkel og aðrir hægrimenn gætu sætt sig við hann þar sem hann tilheyrir mið-hægri flokkafjölskyldunni.
Fundur leiðtogaráðs Evrópusambandsins í dag er bara einn af fjölmörgum formlegum og óformlegum fundum sem haldnir verða í Brussel og víða um Evrópu næstu vikurnar til að ákvarða hvaða einstaklingar taki við valdamestu embættum Evrópusambandsins næstu fimm árin.