Enski boltinn

Mettilboð frá Tottenham í miðjumann Real Betis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giovani Lo Celso.
Giovani Lo Celso. Getty/Aitor Alcalde Colomer
Tottenham hefur ekki keypt einn einasta leikmann í síðustu tveimur félagsskiptagluggum en nú lítur út fyrir að félagið ætli að slá félagsmetið í upphafi sumargluggans.

Tottenham á að hafa boðið 53 milljónir punda í Giovani Lo Celso samkvæmt frétt BBC. Lo Celso er miðjumaður hjá Real Betis.

Dýrasti leikmaður Tottenham er eins og er Kólumbíumaðurinn Davinson Sanchez sem Tottenham keypti fyrir 42 milljónir punda frá Ajax í ágúst 2017.





Giovani Lo Celso er 23 ára Argentínumaður og er því samlandi knattspyrnustjórans Mauricio Pochettino.

Lo Celso var í eigu Paris Saint-Germain frá 2016 til 2019.Real Betis fékk hann á láni frá PSG í ágúst 2018 með möguleika á að kaupa hann.

Real Betis nýtti sér þann forkaupsrétt í apríl 2019 en nú lítur út fyrir að spænska félagið ætli að selja hann strax og græða góðan pening. Real Betis fékk hann frá PSG fyrir 22 milljónir evra og er mögulega að fara að selja hann fyrir 60 milljónir evra.

Giovani Lo Celso spilar vanalega á miðri miðjunni en hann var með 9 mörk og 5 stoðsendingar í 32 leikjum í spænsku deildinni á nýloknu tímabili. Alls var hann með 16 mörk og 6 stoðsendingar í 45 leikjum í öllum keppnum.





Verði af þessum kaupum þá verður Giovani Lo Celso fyrsti nýi leikmaður Tottenham síðan að félagið keypti Lucas Moura frá Paris Saint-Germain í janúar 2018. Lucas Moura og Lo Celso voru liðsfélagar hjá PSG.

Það er nóg að gera hjá Giovani Lo Celso á næstunni því hann var á dögunum valinn í hóp Argentínumanna fyrir Suðurameríkubikarinn í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×