Erlent

May: Ekkert Brexit líklegra en Brexit án samnings

Kjartan Kjartansson skrifar
Senn líður að ögurstundu hjá May forsætisráðherra.
Senn líður að ögurstundu hjá May forsætisráðherra. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands,  ætlar að vara við því að breska þingið sé líklegra til þess að koma í veg fyrir að landið gangi úr Evrópusambandinu en að leyfa ríkisstjórninni að ganga út án samninga í ræðu sem hún heldur í dag. Þingið á að greiða atkvæði um útgöngusamning May á morgun.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að May ætli að halda því fram að traust á stjórnmálum eigi eftir að bíða „hörmulega hnekki“ ef ekki verði farið eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem haldin var árið 2016.

Flestir bendir til að útgöngusamningi May verði hafnað á morgun. Hún frestaði fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu í desember og hefur síðan reynt að sannfæra þingmenn eigin flokks um að styðja samninginn og að fá betri kjör frá Evrópusambandinu.

Verkamannaflokkurinn hefur sagst ætla að leggja fram vantraust á May verði samningur hennar felldur.

Talið er að um hundrað þingmenn Íhaldsflokks May og tíu þingmenn DUP, norðurírskra sambandssinna sem verja minnihlutastjórna hennar, ætli að kjósa gegn samningnum með þingmönnum Verkamannaflokksins og öðrum stjórnarandstöðuflokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×