Enski boltinn

Klopp virðir kaupstefnu Pochettino og Tottenham

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp og Pochettino mætast um helgina.
Klopp og Pochettino mætast um helgina. vísir/getty
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að hann beri virðingu fyrir framgöngu Tottenham á leikmannamarkaðnum undir stjórn Argentínumannsins Mauricio Pochettino.

Tottenham skrifaði sig í sögubækurnar síðasta sumar er þeir urðu fyrsta liðið síðan 2003 sem keypti ekki einn leikmann í félagsskiptaglugganum. Á meðan eyddi Liverpool rúmum 120 milljónum punda.

„Á Englandi, landi félagsskiptanna, er það stór fyrirsögn ef þú kaupir ekki leikmann. Ég er viss um að Pochettino hefði elskað að fá leikmenn en það er erfitt að bæta byrjunarlið Tottenham,“ sagði Klopp.

„Ef þú lítur á þetta frá því sjónarmiði, ef þú ert með rétta liðið, þarftu ekki að vera upptekinn á félagsskiptamrakaðnum. Þú getur einnig bætt leikmennina sem eru hjá þér. Kannski eru þeir betri en sá sem þú vildir kaupa.“

„Ég ber mikla virðingu fyrir þeirra stefnu. Að lokum verða allir að taka þeirra ákvörðun. Ég veit ekki afhverju þeir gerðu þetta en oftast þegar þú kaupir ekki leikmenn er það útaf peningunum.“

Liverpool mætir Tottenham í stórleik helgarinnar en flautað er til leiks klukkan 15.30 á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×