Enski boltinn

Klopp og Guardiola tilbúnir að ganga af velli vegna rasisma

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guardiola er tilbúinn til þess að leikmenn hans labbi af velli ef þeir verða varir við kynþáttaníð
Guardiola er tilbúinn til þess að leikmenn hans labbi af velli ef þeir verða varir við kynþáttaníð vísir/getty
Stjórar toppliða ensku úrvaldsdeildarinnar segjast tilbúnir til þess að stoppa leiki og láta lið sín ganga af velli ef þeir verða varir við kynþáttaníð.

Mikið hefur borið á kynþáttaníði frá stuðningsmönnum víðsvegar um Evrópu á tímabilinu og segir Pep Guardiola að ástandið fari versnandi.

Jurgen Klopp segir fótboltann þurfa að gera allt sem í valdi hans standi til þess að koma í veg fyrir kynþáttaníð.

„Það á enginn skilið að það sé níðst á þeim. Ef það gerist er ég fyrstur til þess að segja: Hættum leik, við ætlum ekki að spila lengur,“ sagði Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham. Klopp og Guardiola tóku báðir undir það.

Varnarmaður Tottenham, Danny Rose, var á meðal ensku leikmannanna sem þurftu að sitja undir kynþáttaníði frá stuðningsmönnum Svartfjallalands í 5-1 sigri Englands í undankeppni EM 2020.

„Það er ekkert mikilvægara í þessu lífi en að vernda þessi gildi og undirstöðuatriði. Það má enginn níðast á öðrum. Þú mátt ekki koma fram við annað fólk á þennan hátt,“ bætti Pochettino við.









Neil Warnock, stjóri Cardiff, fór það langt að leggja til að liðum væri hent úr keppni ef stuðningsmenn þeirra eru uppvísir um kynþáttaníð.

Harðari refsingar fyrir kynþáttaníð er eitthvað sem fleiri hafa kallað eftir, meðal annars Raheem Sterling, einn af stjörnuleikmönnum Manchester City.

„Staðan breytist ekki nema eitthvað verði gert. Þess vegna er fólk eins og Raheem að biðja um harðari refsingar, það er betra fyrir samfélagið,“ sagði Guardiola.

„Fótbolti er sterkt vopn til þess að verja undirstöðuatriði mannkynsins.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×