Fulltrúar Orkusölunnar mættu á fund byggðarráðs Skagafjarðar á dögunum að kynna fyrirhuguð virkjunaráform í Tungudal í Fljótum.
„Málið hefur ekki áður komið inn á borð byggðarráðs enda málið á algeru frumstigi.
Eftir fyrstu kynningu er ljóst að meta þarf áhrif slíkrar framkvæmdar fyrir Fljótin og Skagafjörð, en virkjunin myndi framleiða um 2 MW af rafmagni,“ bókaði byggðarráðið.
„Ljóst er að afla þarf frekari gagna og fara í meiri rannsóknarvinnu á svæðinu ætli forsvarsmenn þessa verkefnis að halda með það áfram.“
Málið var síðan tekið fyrir í sveitarstjórn á miðvikudag sem tók í sama streng.
