Fótbolti

Gunnleifur selur allar treyjurnar sínar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnleifur í treyju Van der Sar og svo heldur hann á treyju Portúgalans Raul Meireles.
Gunnleifur í treyju Van der Sar og svo heldur hann á treyju Portúgalans Raul Meireles. mynd/úr einkasafni
Knattspyrnumarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson mun á næstu vikum standa fyrir uppboði á þeim aragrúa knattspyrnutreyja sem hann hefur sankað að sér í gegnum tíðina.

Gunnleifur á glæsilegan feril að baki og var lengi í leikmannahópi landsliðsins. Það eru því margar verðmætar treyjur í safni hans.

Þar á meðal treyjur sem Joe Hart, fyrrum markvörður Man. City og enska landsliðsins, og Edwin van der Sar, fyrrum markvörður Man. Utd og hollenska landsliðsins, hafa klæðst.

„Ég á svo sem enga sérstaka uppáhaldstreyju í safninu en það eru margar góðar þarna eins og treyjurnar frá Hart og Van der Sar,“ segir Gunnleifur.

„Það er líka mikill fjölbreytileiki. Treyjur frá Íran, Ísrael og fleiri stöðum. Það er vonandi að fólk vilji kaupa og styrkja um leið gott málefni.“

Brot af treyjunum.


Þetta eru bæði treyjur sem Gunnleifur hefur skipst á við aðra leikmenn og einnig sem vinir hans hafa fengið fyrir hann.

Treyjurnar verða á uppboði á fotbolti.net og eru þær til sýnis í Sport&Grill í Smáralind. Þær treyjur sem ekki fara í uppboð fara á slá í Jóa Útherja.

Allur ágóði af sölunni mun renna til Píeta-samtakanna sem eru sjálfsvígsforvarnarsamtök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×