Erlent

Sjálfskipaðir landamæraverðir sagðir hafa ætlað sér að ráða Obama af dögum

Larry Mitchell Hopkins, sem talinn er höfuðpaur hópsins.
Larry Mitchell Hopkins, sem talinn er höfuðpaur hópsins. Mynd/Fangelsið í Dona Ana.
Maðurinn sem grunaður er um að vera leiðtogi öfgahóps sem starfaði á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna er sagður hafa stærð sig af því að hafa lagt á ráðin um að ráða Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, af dögum.

Bandaríska alríkislögreglan FBI handtók hinn 69 ára gamla Larry Mitchell Hopkins á laugardaginn, aðeins nokkrum dögum eftir að hópur sem Hopkins er hluti af birti myndbönd þar sem vopnaðir menn sjást stöðva flóttamenn við landamærin í Nýju Mexíkó.

Hópurinn kallar sig United Constitutional Patriot og segja meðlimir hans að að hlutverk hópsins sé að aðstoða landamæraverði í Bandaríkjunum við að hindra för flóttamanna til Bandaríkjanna yfir landamærin.

Hopkins hefur verið ákærður fyrir að hafa haft skotvopn í fórum sínum á ólöglegan hátt. Í dómskjölum málsins sem lögð hafa verið fram í málinu gegn honum kemur fram að FBI hafi fengið ábendingar um að hópurinn hafi haft í hyggju að ráða Obama, Hillary Clinton og George Soros af dögum.

Samkvæmt skjölunum er Hopkins sagður hafa stært sig af þessum áætlunum. Lögfræðingar Hopkins þvertekur fyrir að Hopkins hafi látið orð í þessum dúr falla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×