Fótbolti

Sara Björk: Geir hafði lítinn sem engan á­huga á kvenna­lands­liðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sara Björk í leik með íslenska landsliðinu.
Sara Björk í leik með íslenska landsliðinu. vísir/getty
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, sendir Geir Þorsteinssyni, fyrrverandi formanni KSÍ og formannsframbjóðanda, væna pillu á Twitter-síðu sinni í dag þar sem hún hálfpartinn lýsir yfir stuðningi við sitjandi formann, Guðna Bergsson.

Hún merkir tístið með myllumerkinu #KSÍFormaður sem notað var í kappræðum Stöðvar 2 Sports í gærkvöldi þar sem að Geir og Guðni mættust í sjónvarpssal undir stjórn Henrys Birgis Gunnarssonar.

Á meðan að kappræðunum stóð sendi Dagný Brynjarsdóttir, einn besti leikmaður kvennalandsliðsins, einnig pillu á Geir og hrósaði Guðna sem á mikinn stuðning hjá kvennalandsliðinu, að því virðist vera.

Sara Björk og Dagný virðast ekki þurfa að hafa miklar áhyggjur af því að Geir snúi aftur sem formaður því könnun íþróttadeildar á fylgi Geirs og Guðna innan knattspyrnuhreyfingarinnar sýnir að Guðni mun valta yfir Geir á ársþinginu næsta laugardag.

Á síðasta ári jafnaði Guðni Bergsson stigabónus kvennalandsliðsins við karlalandsliðið og fá stelpurnar nú, samkvæmt heimildum Vísis, 100 þúsund krónur fyrir hvert stig og því 300 þúsund krónur fyrir hvern sigurleik.


Tengdar fréttir

Guðni og Geir mættust í kappræðum

Guðni Bergsson og Geir Þorsteinsson bítast um formannstólinn hjá KSÍ og þeir sátu fyrir svörum í beinni á Vísi í kvöld.

Könnun íþróttadeildar: Guðni er að valta yfir Geir

Íþróttadeild Stöðvar 2 og Vísis stóð fyrir könnun á meðal aðildarfélaga KSÍ um hvaða formannsframbjóðanda félögin ætluðu að kjósa. Sú könnun kom afar vel út fyrir sitjandi formann, Guðna Bergsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×