Fótbolti

Rúrik lagði upp og Willum spilaði í stórsigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sandhausen er í fallbaráttu í B-deildinni
Sandhausen er í fallbaráttu í B-deildinni vísir/getty
Rúrik Gíslason lagði upp mark Sandhausen í jafntefli við Paderborn í þýsku B-deildinni í fótbolta í dag. Willum Þór Willumsson spilaði sinn fyrsta deildarleik fyrir BATE.

Sandhausen fékk Paderborn í heimsókn og það voru heimamenn sem komust yfir í leiknum. Þeir fengu hornspyrnu á 17. mínútu sem íslenski landsliðsmaðurinn tók. Tim Kister var fyrstur í boltann og skallaði hann í netið.

Það stefndi allt í að þetta yrði eina mark leiksins og Sandhausen tryggði sér mikilvægan sigur í fallbaráttunni en í uppbótartíma fékk Karim Guede sitt annað gula spjald, og því rautt, fyrir að handleika boltann innan vítateigs og var sendur út af. Hann hafði komið inn sem varamaður fyrir Rúrik á 61. mínútu.

Paderborn fékk því vítaspyrnu, Phillipp Klement fór á punktinn og skoraði. Lokatölur urðu því 1-1 jafntefli. Sandhausen er með 27 stig í 15. sæti, síðasta örugga sæti deildarinnar, þremur stigum á undan Magdeburg sem á leik til góða.

Í Hvíta-Rússlandi kom Willum Þór Willumsson inn á og spilaði sínar fyrstu mínútur í deildinni stórsigri BATE á Energetik-BGU.

Willum, sem keyptur var til BATE fyrir tímabilið sem var að hefjast, hafði setið á varamannabekknum í fyrsta leik liðsins í deildinni en spilað tvo bikarleiki.

Hann var aftur á bekknum í dag þegar BATE sótti Energetik heim en var skipt inn á á 71. mínútu fyrir Yevgeniy Berezkin. Þá var staðan 3-0 fyrir BATE. Igor Stasevich skoraði fjórða markið þremur mínútum seinna, lokatölur uðru 4-0.

BATE situr á toppi hvít-rússnesku deildarinnar með fullt hús eftir tvær umferðir og markatöluna 6-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×