Fótbolti

Rakel tryggði sigur á Suður-Kóreu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rakel í leik með íslenska landsliðinu
Rakel í leik með íslenska landsliðinu vísir/daníel
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hafði betur gegn Suður-Kóreu í vináttuleik þar í landi nú í morgun. Rakel Hönnudóttir skoraði sigurmark Íslands í lok leiksins.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom íslenska liðinu í forystu eftir rétt tæpan hálftíma og bætti hún öðru marki við á 40. mínútu. Ísland var því með tveggja marka forystu þegar gengið var til hálfleiks.

Heimakonur í Suður-Kóreu byrjuðu seinni hálfleikinn betur og minnkuðu muninn á 53. mínútu. Þær jöfnuðu svo leikinn á 72. mínútu.

Þegar allt stefndi í að liðin gerðu jafntefli skoraði Rakel Hönnudóttir, sem hafði komið inn á sem varamaður í seinni hálfleik, sigurmarkið fyrir Ísland í uppbótartíma, lokatölur 2-3 fyrir Íslandi í Suður-Kóreu.

Þetta var fyrri leikur liðanna af tveimur í þessari æfingaferð, seinni leikurinn er á þriðjudaginn. Suður-Kórea er á leiðinni á HM í Frakklandi í sumar og eru þessir leikir liður í undirbúningi þeirra, en þær sitja í 14. sæti heimslista FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×