Fótbolti

Mané bætti upp fyrir vítaklúður með tveimur mörkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mané skoraði tvö mörk og klikkaði á víti gegn Keníu.
Mané skoraði tvö mörk og klikkaði á víti gegn Keníu. vísir/getty
Sadio Mané skoraði tvö mörk þegar Senegal tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Afríkumótsins í Egyptalandi með 0-3 sigri á Keníu í kvöld. Alsír vann Tansaníu með sömu markatölu og tryggði sér toppsætið í C-riðli.

Mané klúðraði vítaspyrnu í fyrri hálfleik en bætti upp fyrir það með tveimur mörkum í þeim seinni. Seinna mark Liverpool-mannsins kom úr víti. Ismaila Sarr var einnig á skotskónum í kvöld.

Senegalar lentu í 2. sæti C-riðils með sex stig. Keníumenn enduðu í 3. sæti riðilsins og verða að bíða til morguns til að vita hvort þeir komist áfram. Þau fjögur lið sem eru með bestan árangur í 3. sæti riðlanna sex í Afríkumótinu komast í 16-liða úrslit.

Alsíringar áttu ekki í miklum vandræðum með að leggja Tansaníumenn, 0-3. Öll mörkin komu í fyrri hálfleik.

Islam Slimani kom Alsír á bragðið og Adam Ounas, leikmaður Napoli, bætti svo tveimur mörkum við. Alsíringar unnu alla leiki sína í C-riðli og fengu ekki á sig mark.

Tansíumenn töpuðu öllum þremur leikjum sínum og enduðu í fjórða og neðsta sæti C-riðils.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×