Innlent

Þingmenn fordæma meðferðina á albanskri konu

Þingmenn stjórnarandstöðunnar ræddu mál albönsku flóttakonunnar bæði undir liðnum störf þingsins og fundarstjórn forseta á Alþingi í dag.

„Maður trúir því ekki að svona sé staðið að verki. En það er það samt. Og þessu verður að breyta. Aðfarir af þessu tagi mega ekki endurtaka sig,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar.

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði lífi konunnar og ófædds barns hennar hafa verið stefnt í hættu.

„Þetta herra forseti er algerlega óboðlegt, ómanneskjulegt og ég fordæmi þessi vinnubrögð Útlendingastofnunar, alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra, læknis á móttökumiðstöð Útlendingastofnunar og ríkisstjórnarinnar allrar,“ sagði Helga Vala.

Þingmenn lýstu nokkrir óánægju sinni með þróun þingskapa undanfarin ár þannig að ekki væri hægt að taka upp umræður um knýjandi mál með skömmum fyrirvara. Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata sagði skorta vettvang til að ræða þessi mál á Alþingi en úti í þjóðfélaginu vísaði hver á annan.

„Einhvern veginn viðrist hvergi vera vettvangur þar sem er hægt að ræða þessi mál og nákvæmlega þessa spurningu. Það er mannúðina sjálfa. Hvar hún eigi heima,“ sagði Helgi Hrafn.


Tengdar fréttir

Ósammála um túlkun á vottorði ófrísku konunnar

Útlendingastofnun segir að ekkert hafi komið fram í læknisvottorði, sem gefið var út á kvennadeild Landspítalans vegna albanskrar konu í gær, sem benti til þess að flutningur hennar úr landi myndi stefna öryggi hennar í hættu.

Útlendingastofnun segist ekki hafa gert mistök

Útlendingastofnun segist ekki hafa gert mistök í máli barnshafandi konu sem vísað var úr landi ásamt fjölskyldu sinni í nótt. Heilbrigðisstarfsmenn hjá mæðravernd og Embætti Landlæknis telja stofnuna hafa farið gegn ráðleggingum heilbrigðisstarfsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×