Raymond Hoffmann leiðsögumaður tók meðfylgjandi myndband af skemmdum bílum. Hann segir vindhraðann hafa farið upp í 50 metra á sekúndu í Suðursveit hvar myndskeiðið er tekið upp. Nánar tiltekið við Hala sveitahótel.
Vísir ræddi við konu sem er í afgreiðslunni þar og hún sagði vindinn nú hafa gengið niður en hann var býsna hvass í morgun.
Raymond hjálpaði ferðamönnum að líma fyrir gat á rúðum bílanna en hann vill vara fólk við að vera á ferðinni. „Það verður meiri vindur í kvöld,“ segir Raymond sem sá fjóra skemmda bíla og eina rútu sem hafði lent í grjóthríðinni.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur gert nánari grein fyrir því hvað gengur á þarna á Suðurlandinu en hann segir að með N-storminum sem ríkti í morgun hafi feykiharðir sveipir gengið niður hlíðar jöklanna, sérstaklega sunnantil á Vatnajökli.
„Það eru einkum tveir vegakaflar sem þarf að varast í N-áttinni á þessum slóðum. Í fyrsta lagið vestasti hluti Skeiðarársands, frá Lómagnúpi, en þar getur verið mjög byljótt og síðan sandfok, einkum við brúna yfir Gígjukvísl. Austar á sandinum er veðrið yfirleitt skárra sem og í Öræfum. Þar til komið er í beygjuna til austurs við Faguhólsmýri. Stendur þar ofan af Öræfajökli. Þaðan rekja þeir sig staðirnir einn af öðrum allt austur að Hornafjarðarfljóti. Hvað verstir þrír kaflar í Suðursveit og á einum þeirra er nýlegur vindmælir við Borgarhöfn. Þar mældist mesta hviðan 43 m/s,“ skrifar Einar.
Hann bætir því við, sem áður sagði, að veður hafi skánað nú yfir miðjan daginn en hann gangi aftur upp síðdegis og í kvöld eftir kl. 17 megi búast við snörpum byljum, sandfoki og grjótflugi.
Það er svo hvasst í Vík í Mýrdal að rúðan á bílaleigubílnum mínum splundraðist í vindhviðu pic.twitter.com/a4cTxz5KN3
— Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) October 24, 2019