Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Grindavík 2-2 | Jafnt í Eyjum

Einar Kárason skrifar
vísir/bára


Vel viðraði en þó kalt þegar heimamenn í ÍBV tóku á móti Grindvíkingum á Hásteinsvelli í dag. Hvorugu liðinu hafði tekið að ná í sigur í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins og sátu gestirnir í 10. sæti deildarinnar en lið ÍBV í því neðsta án stiga og án þess að hafa skorað mark.

 

Leikurinn fór rólega af stað en Grindvíkingar þó eilítið hættulegri. Þegar tæpar 10 mínútur voru liðnar dró þó til tíðinda. Sigurjón Rúnarsson, leikmaður Grindavíkur, lenti þá í óhappi sem varð til þess að gerð var 21 mínútna töf á leiknum. Sigurjón stökk þá upp í bolta, á Guðmund Magnússon, framherja ÍBV, með þeim afleiðingum að hann kollvarpaðist í loftinu og lenti með höfuðið í grasinu. Kallað var á sjúkrabíl sem tók tíma að komast á völlinn og var Sigurjón fluttur á sjúkrabörum af vellinum og inn í bíl. Afar óhugnalegt atvik og vonandi að hann komist á fullt sem allra fyrst.

 

Þegar leikurinn fór af stað aftur héldu Grindvíkingar áfram að sækja en þó án árangurs. Á fyrstu mínútu í uppbótartíma fengu Eyjamenn aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Grindvíkinga. Upp steig Víðir Þorvarðarson sem skaut boltanum yfir vegginn og upp í samskeytin nær þar sem Vladan Djogatovic kom engum vörnum við. Eyjamenn því komnir yfir. Sú forusta entist þó ekki lengi. Einungis mínútum síðar komu Grindvíkingar boltanum inn í teig Eyjamanna og þrátt fyrir mörg tækifæri náðu þeir ekki að koma boltanum í burtu. Sú ringulreið endaði með því að Gilson Correia varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark og staðan því orðin jöfn.

 

Liðin skiptust á að sækja það sem eftir lifði hálfleiksins en þegar komið var á 21. mínútu uppbótartímans fékk Víðir aukaspyrnu úti á kantinum hægra megin. Víðir tók spyrnuna sjálfur og sendi fyrir markið. Guðmundur Magnússon virtist ná snertingu á boltann sem fór þaðan í Marc McAusland, varnarmann gestanna, og í netið. Það reyndist það síðasta sem gerðist í hálfleiknum og Eyjamenn með 2-1 forustu.

 

Fátt var um fín færi í upphafi síðari hálfleiks en eftir um klukkustundar leik fengu Grindvíkingar aukaspyrnu á svipuðum stað og Víðir skoraði úr í fyrri hálfleik. Aron Jóhannsson tók spyrnuna sem var alls ekki síðri en spyrna Víðis og hafnaði í horninu nær, óverjandi fyrir Halldór Pál Geirsson í markin og staðan orðin 2-2.

 

Lið ÍBV virtist fá góða innspýtingu með innkomu Jonathan Franks og Priestley Keithly í síðari hálfleiknum og bæði lið fengu góð færi til að koma boltanum í netið en án árangurs. Niðurstaðan því 2-2 jafntefli sem verða að teljast sanngjörn úrslit.

 

,,Þetta eru úrslit sem við vildum ekki,” sagði Pedro Hipolito, þjálfari ÍBV, eftir leik. ,,Við byrjuðum ekki vel og virkuðum stressaðir. Tökum slæmar ákvarðanir. Þegar leið á leikinn urðum við rólegri og betri og sköpuðum færi. Miðað við þau færi sem við sköpum eigum við skilið að vinna en fyrri hálfleikurinn var lélegur.”

 

,,Þegar þú færð mark á þig eins og fyrsta markið sem við fengum á okkur. Hvað getur þú sagt? Þetta gerist. Við brugðumst vel við. Við enduðum fyrri hálfleik vel og fengum nokkuð mjög góð færi. Við stjórnum leiknum vel í seinni hálfleik og erum skipulagðir. Stjórnum boltanum, öllu plássi og sköpum færi. Þeir fá eina aukaspyrnu og þeir skora. Við reynum og reynum, en ekkert gengur.”

 

Framherjar Eyjamanna hafa ekki enn fundið netmöskvana eftir þrjá leiki. Er það áhyggjuefni? ,,Nei, það er það ekki. Þeir vinna mikið og eru duglegir. Þeir skapa helling af plássi og færum. Halda bolta, pressa og hlaupa mikið. Þeir eru ekki búnir að skora ennþá en þeir munu skora.”

 

,,Staða okkar er ekki eins og við hefðum óskað. Við viljum fleiri stig. Ef þú hefðir spurt mig fyrir mót að við fengjum aðeins eitt stig eftir þrjá leiki hefði ég sagt það vera slæmt. Ég held að koll af kolli munum við verða betri og í lok tímabils munum við verða ánægðir. Þetta er erfið deild þar sem allir geta unnið alla, heima og að heiman. Allir geta tapað stigum,” sagði Pedro að lokum. 

 

 Srdjan ‘Túfa’ Tufegdzic þjálfari Grindavíkur átti í erfiðleikum með að gera leikinn upp í viðtali strax eftir leik.

,,Það er kannski erfitt að gera leikinn upp núna. Á einni hendi er ég ánægður með að við gefumst ekki upp og gerum allt til að jafna leikinn og reyna að vinna hann en það tókst ekki. En ég er pínu ósáttur með að við erum að fara 2-1 undir í hálfleik þegar við vorum betri aðilinn í leiknum. Það eru misjafnar tilfinningar hjá mér en á endanum virði ég hvert einasta stig. Ef þú vinnur ekki leiki skaltu passa þig að tapa þeim ekki.”

 

,,Þetta var svaka skellur,” sagði Túfa spurður út í mark Víðis Þorvarðarsonar sem skoraði fyrsta mark leiksins. ,,Sérstaklega þar sem á undan aukaspyrnunni erum við í svaka sókn þar sem við erum komnir með boltann 5 metrum frá markinu þeirra. En þetta endaði á endanum á aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og Víðir gerir frábærlega vel. Þetta eru litlir hlutir sem eru ekki að falla með okkur. Fyrsta skot þeirra á markið og þeir skora. Svona er fótboltinn. Við verðum að halda áfram. Það er stígandi hjá okkur.”

 

Tvö sjálfsmörk litu dagsins ljós og það síðara kom ÍBV yfir rétt fyrir hálfleiksflaut. ,,Þetta er það skemmtilegasta við fótboltann. Svona atvik. Þú getur ekki stjórnað þessu. Hvorki þjálfarar eða leikmenn. Þetta gerir leikinn bara ennþá skemmtilegri.”

 

,,Bæði lið gáfu allt í þetta og ég held að fólkið sem mætti hingað hafi verið ánægt með bæði lið.”

 

Sigurjón Rúnarsson, leikmaður Grindavíkur, var borinn af velli og upp í sjúkrabíl eftir óhugnalega byltu en Túfa hafði fengið góðar fréttir eftir leik.

 

,,Hann er kominn til baka af sjúkrahúsinu og eins og staðan er núna líður honum vel. Það er skiptir öllu máli. Þetta leit illa út hvernig hann lendir og allir fengu smá högg í magann þegar hann lenti en hann er kominn inn í klefa eftir skoðun og ég held að þetta verði í góðu og verði kominn fljótt til baka.”

 

,,Við gætum klárlega verið komnir með fleiri stig út úr þessum leikjum. Sérstaklega í dag. Við hefðum getað tekið 3 stig hérna en svona er bara fótbolti. Þrír leikir og bara tvö stig sem er ekki mikið. Við erum bara búnir að tapa einum leik á móti Blikum. Gerum jafntefli við Stjörnuna og hér á erfiðum útivelli. Við verðum klárir í næsta leik á móti KR,” sagði Túfa.

 

,,Að sjálfsögðu hefur maður alltaf trú á því að sækja þrjú stig en úr því sem komið var í þessum leik þá erum við nokkur sáttir,” sagði Aron Jóhannsson, markaskorari Grindavíkur.

 

,,Við vorum að spila ágætlega fyrstu 20-25 mínúturnar í leiknum eða svo en svo fáum við mark á okkur úr förstu leikatriði. Við fáum á okkur tvö mörk úr föstum leikatriðum sem er barnalegt af okkar hálfu og ekki okkur líkt. Við ákváðum að koma sterkir inn í seinni hálfleikinn sem og við gerðum.”

 

Aron skoraði jöfnunarmark Grindavíkur úr frábærri aukaspyrnu en Víðir Þorvarðarson skoraði nánast alveg eins mark í fyrri hálfleiknum. ,,Markið mitt var bara endurtekning af markinu hans (Víðis). Ég sá bara hvernig hann gerði þetta og ákvað að endurtaka leikinn.”

 

En hvort markið var flottara? ,,Mitt var miklu flottara, eigum við ekki að segja það?” sagði Aron brosandi að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira