Erlent

Segir Heard hafa málað á sig marblettina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Depp og Heard í febrúar árið 2016, þremur mánuðum áður en Heard sótti um skilnað.
Depp og Heard í febrúar árið 2016, þremur mánuðum áður en Heard sótti um skilnað. Getty/John Shearer

Bandaríski leikarinn Johnny Depp þvertekur fyrir að hafa beitt Amber Heard, fyrrverandi eiginkonu sína, líkamlegu ofbeldi. Þvert á móti hafi það verið hún sem beitti hann ofbeldi. Þá sakar hann Heard einnig um að hafa málað á sig marbletti til að varpa sökinni á hann.



Þetta kemur fram í skjölum meiðyrðamáls sem Depp höfðaði gegn Heard eftir að hún lýsti meintu heimilisofbeldi af hans hálfu í viðtali við Washington Post. Heard fór fram á að málinu yrði vísað frá en Depp lagði þá fram ný gögn.



Sjá einnig: „Ég var logandi hrædd við skrímslið“

„Ég hef eindregið neitað ásökunum Heard síðan hún setti þær fyrst fram í maí árið 2016 þegar hún kom fyrir dómara til að fá tímabundið nálgunarbann [gegn Depp] með marbletti, sem voru málaðir á,“ er haft eftir Depp í skjölunum. Vitni og upptökur öryggismyndavéla sýni að Heard hafi ekki verið með marblettina dagana fram að fundinum með dómaranum.



Lögmaður Heard þvertekur fyrir þetta og segir hið sanna í málinu skýrt: Depp hafi látið hnefana dynja á fyrrverandi eiginkonu sinni.



Heard sótti um skilnað frá Depp árið 2016 en þau giftu sig í febrúar árið áður. Skilnaðurinn hefur verið hatrammur og hafa hjónin fyrrverandi ítrekað sakað hvort annað um heimilisofbeldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×