Fótbolti

Djurgården segist ekki vera í viðræðum við Kolbein

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolbeinn fagnar marki með Íslandi á EM 2016.
Kolbeinn fagnar marki með Íslandi á EM 2016. vísir/getty
Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska landsliðsins í fótbolta, var í gær sagður á Fótbolti.net vera í viðræðum við sænska úrvalsdeildarfélagið Djurgården.

Kolbeinn er án liðs eftir að losna loks frá Nantes í Frakklandi þar sem staða hans var orðin slæm en Kolbeinn hefur lítið sem ekkert spilað undanfarin tvö ár vegna slæmra meiðsla.

Fótbolti.net segist hafa heimildir fyrir því að Djurgården, sem reyndi einnig að fá Viðar Örn Kjartansson á láni áður en hann fór til Hammarby, sé í viðræðum við félagið en Bosse Andersson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Djurgården, segist ekkert kannast við það.

„Ég get ekkert staðfest. Þetta eru nýjar fréttir fyrir mig,“ segir Bosse Andersson í viðtali við Expressen.

Kolbeinn hefur á sínum ferli spilað fyrir Ajas, AZ Alkmaar, Galatasaray og Nantes en sem fyrr segir verið mikið frá vegna meiðsla undanfarin ár.

Leikmenn á borð við Sölva Geir Ottesen og Kára Árnason hafa spilað fyrir Djurgården og þá þjálfaði Sigurður Jónsson liðið um miðjan síðasta áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×