Innlent

Alþingi hætti að veita ríkisborgararétt

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Sigríður Andersen leggur til að eingöngu Útlendingastofnun geti veitt ríkisborgararétt.
Sigríður Andersen leggur til að eingöngu Útlendingastofnun geti veitt ríkisborgararétt. Fréttblaðið/ERNIR
Dómsmálaráðherra leggur til að veiting ríkisborgararéttar verði einungis á hendi Útlendingastofnunar og að heimild Alþingis til að veita mönnum ríkisborgararétt með lögum verði afnumin. Tilefni þessarar breytingartillögu er einkum sú að afgreiðsla umsókna um íslenskan ríkisborgararétt hefur í auknum mæli færst til Alþingis, að því er fram kemur í frumvarpsdrögum ráðherra um efnið, sem er til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Í athugasemdum frumvarpsins segir að það sé mat bæði ráðuneytisins og Útlendingastofnunar að framkvæmd laga um íslenskan ríkisborgararétt hafi að ýmsu leyti gengið úr skorðum og færst frá tilgangi laganna eins og þau eru í dag.

Í drögunum er þó vikið að nauðsyn þess að heimild til að veita ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun verði rýmkuð svo tryggja megi sanngjarna meðferð mála. Eftir breytinguna muni ákvarðanir Útlendingastofnunar hins vegar aðeins sæta endurskoðun með kæru til kærunefndar útlendingamála en ekki verði lengur unnt að leita til Alþingis.

Frumvarpið var unnið í samráði við allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis en skiptar skoðanir eru meðal nefndarmanna um að taka heimildir Alþingis alveg út. „Hugmynd nefndarinnar var að ákveðin mál sem hafa fallið á formsatriðum hjá Útlendingastofnun gætu fengið fullnaðarafgreiðslu þar og þyrftu ekki að koma til Alþingis,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í allsherjarnefnd. Hann segist þó efins um að rétt sé að loka alveg á Alþingisleiðina.

„Það er mikilvægt að sú leið sé til staðar, því við getum ekki samið lög sem ná almennilega utan um allar þær margvíslegu aðstæður sem umsækjendur koma úr – þó að stjórnsýsluafgreiðsla hjá stofnun eigi að vera grunnreglan,“ segir Andrés Ingi.

Uppfært 20:50 Dómsmálaráðuneytið gerði athugasemd við fyrirsögn og fullyrðingu í frétt Fréttablaðsins um að frumvarp ráðherrans kvæði á um að heimild Alþingis til að veita mönnum ríkisborgararétt með lögin yrði afnumin. „Þetta er rangt og frumvarp ráðherra kveður ekki á um þetta. Ekki er hægt að svipta löggjafann valdi til lagasetningar, þ.m.t. veitingu ríkisborgararéttar,“ segir í athugasemd ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×