Fótbolti

Sonur Ronaldinho leyndi því hver væri faðir hans en fékk samt samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho er og var engum líkur. Ætli sonur hans verði jafngóður?
Ronaldinho er og var engum líkur. Ætli sonur hans verði jafngóður? Vísir/Getty
Joao Mendes er aðeins fjórtán ára gamall fótboltastrákur frá Brasilíu. Hann hefur nú fengið samning hjá brasilíska fótboltafélaginu Cruzeiro.

Það sem kemur þessum samningi Joao Mendes í heimsfjölmiðlanna er að hann er sonur goðsagnarinnar Ronaldinho. Ekki minnkaði athyglin á fréttinni þegar það kom í ljós að Joao Mendes vildi ekki að neinn hjá félaginu vissi að hann væri sonur Ronaldinho.

Joao Mendes vildi fá samning á eigin verðleikum og tókst það. Hann sagði ekki frá því hver væri faðir hans fyrr en eftir að samningurinn var undirritaður.





Félagið sagði frá því að enginn þar hafði vitað af því fyrir fram að þarna væri á ferðinni sonur hins magnaða Ronaldinho sem var á sínum tíma valinn besti knattspyrnumaður heims.

Joao Mendes fékk samninginn vegna eigin hæfileika en þetta er sterkur og teknískur sóknarmaður sem getur spilað allar stöður í framlínunni.

„Hann er leikmaður sem getur spilað inn í teig sem og fyrir aftan framherjann. Hann er stór og sterkur en hefur auk þess mikinn hraða og klárar færin sín vel,“ sagði Amarildo Ribeiro, yfirmaður unglingastarfsins hjá Cruzeiro.





Ronaldinho er nú 39 ára gamall. Hann er talinn vera í hópi bestu knattspyrnumanna allra tíma en Brasilíumaðurinn er þekktur fyrir galdra sína með boltann og að vera hugmyndaríkur inn á vellinum þar sem frábær tækni hann og hæfileikar fengu að njóta sín.

Ronaldinho varð heimsmeistari með Brasilíumönnum árið 2002 en á sautján ára ferli sínum spilaði hann með liðum eins og Paris St-Germain, Barcelona og AC Milan. Hann vann Gullhnöttinn árið 2005.

Samningur stráksins við Cruzeiro er til ársins 2025 en á því ári heldur hann upp á tvítugsafmælið sitt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×