Innlent

Biður farþega um að sýna biðlund vegna flugtafa

Sylvía Hall skrifar
Veðrið hefur sett ferðaplön margra í uppnám.
Veðrið hefur sett ferðaplön margra í uppnám. Vísir/Vilhelm
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir allt kapp vera lagt á það að koma farþegum á áfangastaði og reyna leysa úr þeirri stöðu sem uppi er eftir að tugum flugferða var frestað vegna veðurs en öllu flugi Icelandair frá Keflavíkurflugvelli frá 16:10 hefur verið aflýst.

Þremur flugum til Bandaríkjanna var bætt við í hádeginu í dag og verða fjögur til viðbótar á morgun. Þá verður tveimur flugum til Evrópu bætt við eftir miðnætti en mikil örtröð hefur skapast á Keflavíkurflugvelli og hafa margir farþegar kvartað undan óánægju á samfélagsmiðlum.

„Við erum að reyna að finna lausnir og vinna þetta eins hratt og við getum,“ segir Ásdís í samtali við Vísi.

Mikið álag á þjónustuverið 

Margir farþegar hafa kvartað undan því hversu erfitt sé að ná sambandi við þjónustuver flugfélagsins sem farþegum var bent á. Ásdís segir ástæðuna vera mikið álag enda hefur veðrið haft áhrif á ferðaplön þúsundir farþega en starfsmenn séu að vinna í því að hafa samband við farþega að fyrra bragði. 

„Þó að fólk sé ekki að ná í gegn þá erum við að vinna í því að koma öllum í flug. Þetta tekur tíma og við erum með heilmikinn mannskap í þessu og erum bara að gera okkar besta,“ segir Ásdís og biður fólk um að sýna biðlund. 

Erlendir farþegar sem verða fyrir áhrifum vegna þessa fá gistingu og fæði sem og keyrslu til og frá flugvellinum. Þangað til verður unnið að því að koma fólki á sína áfangastaði. 

„Auðvitað vill fólk fá úrlausn og við erum að gera okkar allra besta,“ segir Ásdís að lokum.


Tengdar fréttir

Hvass­viðrið setur flug­sam­göngur enn úr skorðum

Hvassviðrið sem hrjáði Keflavíkurflugvöll í gærkvöld heldur áfram að valda vandræðum. Vegna veðurspár hefur verið gripið til þess ráðs að aflýsa seinni-parts flugi til Bandaríkjanna og Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×