Fótbolti

Vandræði Mónakó halda áfram eftir tap gegn Rúnari og félögum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Dijon fagna marki í kvöld.
Leikmenn Dijon fagna marki í kvöld. vísir/getty
Vandræði Mónakó halda áfram en í kvöld tapaði liðið með tveimur mörkum gegn Dijon á útivelli í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Lokatölur 2-0.

Liðið ákvað að reka Thierry Henry í gær og réðu í staðinn fyrrum stjóra liðsins Leonardo Jardim en hann var þó ekki mættur á bekkinn í kvöld er liðið spilaði við Dijon.

Kwon Chang-Hoon kom Dijon yfir á 24. mínútu og ekki skánaði ástandið hjá Mónakó er Naldo fékk beint rautt spjald eftir klukkutíma. Naim Sliti tvöfaldaði svo forystuna á 68. mínútu og lokatölur 2-0.

Rúnar Alex Rúnarsson sat á bekknum hjá Dijon sem er í sextánda sæti deildarinnar. Þeir eru með tuttugu stig og mikilvægur sigur í fallbaráttunni en Mónakó er í næst neðsta sætinu, þremur stigum frá öruggu sæti.

Mikael Anderson spilaði í stundarfjórðung er Excelsior vann 2-0 sigur á De Graafschap í hollensku úrvalsdeildinni en Elías Már Ómarsson var ónotaður varamaður. Excelsior lyfti sér upp í fjórtánda sætið með sigrinum.

Ari Freyr Skúlason var ónotaður varamaður er Lokeren steinlá fyrir Zulta-Waregem í belgísku úrvalsdeildinni, 3-0. Lokeren er í bullandi vandræðum. Liðið er á botninum eð fjórtán stig, átta stigum frá öruggu sæti og sjö leikir eftir af deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×