Þúsundir barna voru tekin af foreldrum sínum á landamærunum þegar ríkisstjórn Donalds Trump tók upp nýja stefnu um að handtaka og ákæra alla þá sem komu ólöglega yfir þau í fyrra. Stefnan var svo óvinsæl að Trump gaf út tilskipun um að binda enda á hana í flýti síðasta sumar.
Dómari í San Diego gerði alríkisstjórninni að skila börnunum sem hún væri með í haldi til foreldra sinna í júní í fyrra. Eftir að innri endurskoðandi heilbrigðisráðuneytis Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að mun fleiri börn hefðu verið tekin af foreldrunum sínum en áður hafði verið greint frá í skýrslu í síðasta mánuði kröfðu dómstólar ríkisstjórnina um greinargerð í málinu. Upphaflega sögðust stjórnvöld hafa tekið rúmlega 2.700 börn frá foreldrum sínum en ljóst er að þau eru þúsundum fleiri.
Í áliti Jonathans White, sem stýrir tilraunum ráðuneytisins til þess að sameina fjölskyldur innflytjenda, kemur fram að jafnvel þó að hægt væri að koma börnunum aftur til foreldra sinna myndi það líklega skaða þau „tilfinningalega“ að taka þau af fósturforeldrunum sem þeim var komið fyrir hjá. Sagði White að ráðuneytið myndi setja í forgang að koma börnum sem það hefur í haldi til foreldra sinna, ekki þeim sem eru í fóstri, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.
„Það myndi raska varanleika núverandi heimaumhverfis þeirra og gæti valdið börnunum áfalli,“ sagði White í greinargerðinni sem var skilað á föstudag.
Sögð sláandi játning á viljaleysi ríkisstjórnarinnar
Ráðuneytið segir að yfirgnæfandi meirihluti barnanna hafi farið til skyldmenna sinna í fóstur. Í meira en helmingi tilvika voru börnin send til annarra en foreldra sinna í fyrra. Jallyn Sualog, aðstoðarforstöðumaður flóttamannahjálpar ráðuneytisins, sagði í greinargerðinni að ríkisstjórnin hefði ekki lagalegar heimildir til að taka börn af fósturfjölskyldum og að það gæti verið „sundrandi og skaðlegt“ fyrir börnin.„Að sundra fjölskyldusambandi er ekki barnaverndaraðgerð sem mælt er með,“ sagði hún.
Þá benti hún á hversu langan tíma það tæki fyrir ráðuneytið að fara yfir öll mál þess fram að dómsúrskurðinum um að fjölskyldurnar skyldu sameinaðar. Þyrfti ráðuneytið að ráðast í það verk myndi það stefna rekstri þess í „verulega hættu“ nema að fjölgað yrði hratt og verulega í starfsliðinu.
Borgararéttindabandalag Bandaríkjanna (ACLU) krefjast þess að börnum sem voru send í fóstur verði einnig skilað til foreldra sinna. Krafa þeirra verður tekin fyrir síðar í þessum mánuði.
„Viðbrögð ríkisstjórnar Trump eru sláandi viðurkenning á því að hún geti ekki haft uppi á þúsundum barna sem hún reif af foreldrum sínum á auðveldan hátt og að hún telji ekki tímans virði að hafa uppi á þeim,“ segir Lee Gelernt, lögmaður ACLU í málinu.